Fríkkað uppá á ódýran hátt.
14.2.2011 | 20:06
Eflaust eru margir sem eru orðnir leiðir á eða langar að breyta og bæta íbúðirnar sínar en hafa ekki mikið fjármagn til þess. En málið er að það þarf ekki alltaf að kosta mikið og hægt er að gera ótrúlegar breytingar á íbúðum fyrir ótrúlega lítinn pening. Þetta vita margir en fyrir þá sem vantar hugmyndir þá hef ég sett saman nokkra gagnlega punkta:
1. Eitt af því sem hefur hvað mest áhrif á breytt útlit íbúðar og kostar hvað minnst er MÁLNING. Nú til dags er hægt að mála næstum hvað sem er. Veggi, gólf, innréttingar, húsgögn og meira að segja baðflísar. Því er það góð byrjun þegar taka skal til hendinni að mála uppá nýtt.
2. Málverk eða myndir setja oft fallegan svip. Hægt er að prófa sig áfram og sletta litum á striga eða, eins og ég gerði, safna saman öllum málverkunum sem börnin okkar hafa gefið okkur og búa til listaverkavegg sem prýða þau. Hjá mér kom það mjög skemmtilega út.
3. Lýsing hefur ótrúleg áhrif og ekki þarf að fara lengra en í Ikea t.d til að fá hin fínustu ljós til að skapa gott andrúmsloft. En það er alltaf jafn gaman að sjá ljós hjá fólki sem hefur góða sköpunargáfu og býr til ótrúlega flott ljós sjálft.
4. Breyta húsgögnum sem okkur finnst vera "out of style" eða við erum orðin leið á. Getum annað hvort málað þau eða leitast eftir bólstrara sem býður sanngjarnt verð í þá vinnu. Eða bæði. Getur gert kraftaverk. Ég er einmitt þessa dagana að mála ýmislegt, s.s bókaskáp, koju o.fl. bíður mín;) Mér finnst fátt skemmtilegra en að fara í Góða Hirðinn og leita að einhverju sem ég get breytt:)
5. Baðherbergin eru oft "out of date" og forljótar flísar, jafnvel með blómamynstri eyðileggja alla stemmingu. Það er vel hægt að fá sérstaka málningu til að kippa því í liðinn. Skipta um sturtuhengi, fá sér fallega lit handklæði og jafnvel kertastjaka og kerti í stíl. Svo er vel hægt að mála innréttingu og skipta um höldur. (Er einmitt á leiðinni að skoða höldur;)
6. Eitt af mikilvægustu rýmunum í húsinu er eldhúsið. Þar gilda sömu lögmál og á baðherberginu, mála, mála ,mála nú eða þá skipta um hurðar og skúffufronta án þess að losa sig við alla innréttinguna.
7. Gluggatjöld geta gert ótrúlegan gæfumun og ekki þurfa þau að kosta hönd og fót. Nú er mjög móðins að hafa þau frekar þykk og jafnvel í fallegum litum, hægt að fá þau á góðu verði og oft tilbúin í t.d rúmfatalagernum eða Ikea.
Það er sem sagt alveg hægt að hafa fínt án mikils kostnaðar, sniðugt að taka fyrir eitt rými hússins í einu ,þá þarf maður ekki að punga út fyrir öllu strax.
Hérna eru myndir af flottri íbúð sem hefur einmitt verið tekin í gegn á ódýran hátt, þessi finnst mér smart. Sérstaklega "bókaveggfóðrið"og bleika borðið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.